“Ég ætla að fara í Járnmann 2018 til Kaupmannahafnar”

Sagði góður kunningi við mig haustið 2016. „Ég kem með“ sagði ég án þess að hugsa mig um.

Þetta voru fyrstu kynni mín af þríþraut, ég vissi ekkert um þríþraut.

Ég hafði verið að mæta þrisvar til fjórum sinnum í viku í morgunrækt hjá Hreyfingu var nálægt 100 kg í TOPP formi.

Sveinn Símonarson

Mæta á æfingar, gefa og þiggja með hópnum

Það er svo ekki fyrr en ári seinna í lok sumars 2017 að ég hitti nýja nágranna minn sem er kominn yfir sjötugt, hann sagði mér að hann æfði þríþraut og hafi klárað ½ járnmann og hefði verið að æfa með þríþrautarfélaginu 3SH. Rifjaðist þá upp yfirlýsing mín frá því 2016 og fór ég að spyrjast betur fyrir um möguleikann á að æfa þríþraut.

Þetta haust byrjaði að vinna á sama vinnustað og ég vinn hjá hann Geir Ómarson einn fremsti þríþrautarmaður landsins, hann æfir og þjálfar með þríþrautarfélaginu Ægi3.  Ég fór að spyrja hann um þríþraut og segja frá áhuga mínum á að æfa, hann lagði til að hafa samband við 3SH þar sem ég byggi í Hafnarfirði.

Fylgja eigin markmiðum

Ég hafði samband í lok september, þá var nýliðanámskeið í gangi, og mér var boðið á sundæfingu daginn eftir. Fyrstu sundæfingarnar voru svakalegar, ég taldi mig góðan sundmann þar sem ég var alltaf góður í skólasundi, en mikið skjátlaðist mér. Ég sá að Mladen sundþjálfari hló í laumi af mér og var stöðugt að segja mér að róa mig, ég var næstum drukknaður á fyrstu æfingunni og fór heim með verulega brotið sjálftraust.

Ákvað samt að mæta aftur og leggja mig fram um að hlusta á Mladen. Þetta fór að ganga betur hjá mér og nýjar áherslur komu, nú kallaði Mladen, horfa niður Svenni horfa niður, ég var í miklum vanda með tækni fyrstu vikurnar.

Á þessum tím hjálpaði mér mikið að hlusta á eldri félaga tala saman. Að hlusta og vera með í umræðunni er mjög mikilvægt að mínu mati.

Hver og einn er í þessu eins og öllu öðru á eigin forsendum og mikilvægt að halda fast í það, því ef maður vill ná árangri fyrir sig þá þýðir ekkert að reyna að gera nákvæmlega eins og næsti við hliðina, hann eða hún eru á sínum forsendum með sín markmið.

Haustið leið og ég passaði mig á að vera duglegur að mæta á æfingar. Hlaupið er mér erfitt og ekki gott hjá mér, ég æfði hlaupið sjálfur fram að áramótum og fór því ekki að bæta mig fyrr en ég mætti á inniæfingar 3SH eftir áramótin. Þá var einnig gott að fara í 5km BOSE hlaupin með hópnum. Gylfi þjálfari hafði sett plan á æfingum fyrir þau.

Sveinn Símonarson

Mæta í keppnir og vera með

Það er svo á fyrsta vinnudegi 2018 að ég fæ póst um að laust sé í KMD Ironman Kaupmannahöfn í ágúst, ég hafði skráð mig á póstlista á Ironman síðunni. Ég tók ákvörðun á staðnum og skráði mig án þess að vita nokkurn hlut hvað ég í raun var að skrá mig í, sem betur fer annars hefði ég aldrei gert það.

„það var eitthvað í brosi Geirs sem fékk mig til að skoða hlutina betur“

Ég var því skráður í Járnmann þrem mánuðum eftir fyrstu æfingu.  Örfáum mínútum eftir að ég hafði lokið skráningu gengur Geir Ómars framhjá skrifstofunniminni og ég segi honum hvað ég var búinn að gera, hann óskaði mér til hamingju.  “Flott hjá þér þetta verður spennandi”

Það var eitthvað í brosi Geirs sem fékk mig til að skoða hlutina betur, þegar ég fór að gera mér grein fyrir hvað ég var búinn að skrá mig í þá fékk ég vægt sjokk og á því augnabliki þá varð ég að lofa sjálfum mér að taka þríþraut mjög alvarlega ef ég ætlaði að klára þessa miklu raun, mæta á allar æfingar með fullan fókus, auðvitað duttu út æfingar en fókusinn var alltaf til staðar.

Sveinn Símonarson

Það voru sameiginlegar æfingar þríþrautafélagana Ægir3 og 3SH þar er Karen Axels hin mikla þríþrautar kona og fyrirmynd sem líkir eftir keppnum, þessar æfingar eru ómetanlegar fyrir þau okkar sem ætla að stunda keppnir, þar fær maður tilfinninguna fyrir spennunni sem kemur og hvernig best er að takast á við hana, ásamt gleðinni við að taka þátt og klára.

Samkvæmt ráðleggingum tók ég þátt í öllum keppnum hér heima, til að fá inn alla þá reynslu af keppnum sem mögulegt var. Þar kynntist ég mjög mörgu frábæru fólki úr öðrum félögum sem gaman er að hitta í dag.

Undirbúa miðað við eigin markmið

Gylfi þjálfi sendi mér 12 vikna IM prógramm sem ég prentaði út, var með á náttborðinu og hakaði við eins og stundatöflu.

Ég fylgdi því og áður en ég vissi þá var komið að keppninni. Keppnisdagurinn var magnaður, mikið stress og mikið af fólki í sundgöllum um allt. Ég raðaði mér í hópinn og bang, ég var lagður af stað, dagurinn leið eins og í draumi, alveg ótrúleg gleði.
Ég ætla ekki að segja að hann hafi ekki verið erfiður en gleðin og hvatningar frá áhorfendum gerði eitthvað ótrúlegt og áður en ég vissi hljóp ég inn dregilinn og heyrði í hátalaranum:

„Sveinn you are an Ironman.“

Ég ætla ekki að lýsa keppninni hér, það var svo margt skemmtilegt sem gerðist sem ekki er tími til að segja frá núna.

Sveinn Símonarson

Stuðningur fjölskyldunnar er ómetanlegur

Ég hef náð að smita konuna mína og hún kominn í hópinn það er ómetanlegt og vonandi helst það. Í ár erum við búinn að fara í frábæra æfingarferð með hópnum til Tenerife.
Ég hef farið í allar keppnir hér heima eftir þetta, bæði spretti og hálfann járnmann, svo fór ég með tveim 3SH félögum, Gylfa og Palla aftur til Köben í ágúst og við kláruðum allir fullan járnmann.

Í sumar æfðum við saman fyrir þá keppni og var það alveg frábært við vorum á misjöfnum Zone sem hæfði getu og styrk hvers einstaklings, það er ekki að há því að æfa saman, ef einhver hleypur hraðar þá bara hleypur hann til baka og aftur til hægari hlaupara þegar kemur hvíldar z inn á milli.  Sama á við um hjólið.

Þetta er langhlaup að nýjum lífstíl

Það sem ég vil hellst miðla til ykkar nýliða og vona að hafi verið þráðurinn hér að ofan, er að leggja áherslu á við ykkur að vera hér á eigin forsendum, hvort heldur ætlunin sé að keppa á fullu eða ekki.

Það að æfa undir leiðsögn góðra þjálfara og í góðum breiðum hóp er alveg hreint frábær leið til að ná settum markmiðum, en minnið ykkur reglulega á hvert markmiðið er og endurskipuleggið þá ferlið ef eitthvað kemur upp, veiki, mikið álag eða eitthvað annað sem kallar á breytingu, þó nokkrum æfingum er sleppt, það skiptir ekki öllu máli, þetta er langhlaup að nýjum lífstíl.

Það að skipulagðar æfingar eru settar upp hvern einasta dag þýðir ekki að þið verðið að mæta á þær allar, gerið ykkar plan og leggið ykkur fram við að halda því.

Liðið okkar

Og svona að lokum:
Ég var alls ekki að hugsa um að kynnast fólki eitthvað sérstaklega þegar ég fór af stað,

Ég var að fara í Ironman!

Þegar ég skoða síðustu tvö ár þá stendur upp yfir allt annað samveran með góðu fólki sem hefur það að markmiði að efla sál og líkama. Hver markmiðin eru og hversu hart við leggjum á okkur er undir okkur sjálfum komið.  Það mun engin vera í því að setja út á hversu óvön eða hæg við erum, það verða hvatningar við hverja raun og gleði eftir hvern tíma.
Verið dugleg að hlusta, spyrja og endilega gefa öðrum ykkar ráð, þannig virkar lið sem ein heild og verður gott lið.

Sveinn Símonarson (2019)

Share This